<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, nóvember 06, 2003

Hundleiddist í gær, fannst dagurinn ekki hafa neinn tilgang. Fór þó á fyrirlestur um m.a. áhrif aksturslags á velferð sauðfjár í flutningabílum. Hm, á Íslandi hefur það nú ósjaldan komið fyrir að slíkir bílar velta og þá er nú ekki spurt að leikslokum. En restin af deginum leið hjá í móðu leiðinda og aðgerðarleysis. Var þó í óslitnu sambandi við Ísland þar sem ónefndur starfsmaður ónefndrar ríkisstofnunar var duglegur að flytja mér FRÉTTIR símleiðis. En í dag kveður við annan tón. Nú stendur bæjarferð fyrir dyrum hjá mér, ætla að borga leiguna fyrir október, loksins loksins getur bankareikningurinn minn farið að fúngera á eðlilegan hátt. Þannig að eflaust get ég byrgt mig upp af skemmtilegum strætósögum sem endast mér út næstu viku.

Brá mér annars í Hennes og Mauritz á Princes St um daginn. Bretar kalla það nú H&M, líklega af því að þeir skilja ekki hið Norræna "og". Er í miklum móð að fletta klæðum (þó ekki sjálfa mig) þegar ég heyri gjabbað á íslensku. Lít upp og sé þriflegt par á miðjum aldri. Honum leiðist, hún er í essinu sínu og lítur ekki upp þegar hann gjabbar: "Hvað þýðir þetta H og M eiginlega?". Hún: "Ég veit það ekki, æi, Rowells eða eitthvað". Þess má geta að hið íslenska sorglega pöntunarlistaafbrigði heitir einmitt H&M Rowells. En ekki hélt hún að hægt væri að skammstafa orðið Rowells á þennan hátt...

Enn og aftur undrast ég hegðun Íslendinga í útlöndum: Erum við öll svona, og það sem verra er; erum við öll svona ALLTAF? Hef bara upplifað svona íslenska plebbahegðun allt of oft til að þetta geti verið tilviljun. Æi, kannski er þetta bara barnaleg kátína og gleði yfir að vera í útlöndum. Og auðvitað er ekkert að því...eða?


|