<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, nóvember 20, 2003

Ég hef gert mér grein fyrir því hvað ég hef haft óhugnanlega lítið að gera undanfarinn mánuðinn. Ég meina, ég er tvo daga í fullri vinnu á rannsóknastofunni og bloggið dettur bara alveg niður! Sorglegt.

Og samt er ég nú búin að eyða nokkrum tíma í strætó síðustu daga því það er ekkert spaug að komast á milli skrifstofunnar minnar og rannsóknastofunnar. Kostar þrek, tár og tíma. Og úr því að ég hef haft svona lítið fyrir stafni undanfarið þá var ég bara eins og aumingi eftir að hafa pípetterað 27 sýni. Var búin að einbeita mér svo mikið að ég bara lyppaðist niður á eftir. Og þá átti ég eftir klukkutíma ferð heim í strætó.

Ég var sett í allsherjar öryggistékk, var ljósmynduð í bak og fyrir og látin hafa öryggiskort til að nota á læstar dyr. Það var farið með mig niður í kjallara þar sem allir öryggisverðirnir héldu til, þeir voru sumir í skotheldum vestum og ég veit ekki hvað, en allir voru þeir vaxnir eins og nashyrningar. Svo var þarna stjórnborð með 30 öryggisskjáum alveg eins og í geimflaugum (held ég). Þess má geta að á þessum sama spítala dó 95 ára gömul kona í vikunni af því að hún var svo mikill klaufi að hún datt út úr rúminu sínu en rakst í leiðinni í takkann sem hækkar og lækkar rúmið. Endaði hún lífið kramin undir sjúkrahúsrúmi. Það var nú öll rómantíkin. Og hvar voru nashyrningarnir þá? Ég vildi nú ekki gera sjálfri mér það að spyrja.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig skopparar nútímans eigi eftir að líta út sem gamalmenni. Fékk smá vísbendingu um daginn þegar ég mætti hálfsjötugum manni með buxurnar á hælunum, í hettupeysu með dissarahúfu, keðjur og leðurarmband sett göddum. Eitt er víst, að þetta var nú áunninn stíll hjá honum, hann hefur eflaust klætt sig eins og gamall kall þegar hann var ungur en ákveðið að svissa yfir í hip-hoppið. Þetta gefur hins vegar forsmekkinn að því sem koma skal held ég.

|