<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, nóvember 10, 2003

Fór til Edinborgar að morgni laugardags. Þar sem ég stóð og beið eftir strætó kom út úr skóginum skítugt og illa lyktandi ungt par með tvo hunda og allan sinn farangur á bakinu. Höfðu greinilega eytt nóttinni undir berum himni. Hún var krúnurökuð og í skósíðum kjól utan yfir buxum en hann minnti mig á Bean Pole úr hinum geysispennandi sjónvarpsþáttum "Þrífætlingunum". Nema að það eina sem eftir var af krullum var smá hanakambur og svo var heljarlangt dreadlocksdrýli aftan úr hnakkanum á honum. Ekki nóg með að þau þefjuðu, heldur hnakkrifust þau líka. Ég reyndi að láta lítið fyrir mér fara í strætóskýlinu en þau rifust og notuðu mjög ljótt orðbragð sem ég ætla ekki að hafa eftir hér. Rimman virtist standa um atvik sem gerðist í skóginum, þar sem hann átti að hafa gerst ansi voldsom með lurk og barið tré og annað. Hún hafði við þetta skelfst allsvakalega og óttast um líf sitt og geðheilsu hans. Hún stóð sem sagt og hrópaði og kallaði í strætóskýlinu, hann sat og þagði milli þess að unga út úr sér ljótustu orðum sem hann kunni. Endaði þetta á því að hann strunsaði burt, hún grátbiðjandi á eftir og ég sá á eftir þeim inn í skóginn, sömu leið og þau komu. Þau misstu af strætó.

Helgin var annars mjög róleg. Við Sólveig höfðum ætlað að gera eitthvað hressilegt en enduðum á að hangsa bara og fara í búðir og á kaffihús. Hún fór líka á nýaldarsýningu en á meðan mátaði ég föt í búðum við "Heims um ból" og "Rúdolf með rauða trýnið". Ójá, Bretar eru á fullu að kaupa jólagjafir þessa dagana...hmmm...of snemmt fyrir mig.

Og Bretar velta sér ekki bara upp úr jólaskrauti og gjafapappír þessa dagana, Prince Charlie er búinn að vera óþekkur. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum á föstudaginn þegar var sagt frá þessari "frétt" í útvarpinu: "Prinsinn er sakaður um athæfi sem við vitum hvað er en megum ekki segja frá". Svo var fengið sérfrótt fólk til að tjá sig um þetta sem enginn mátti vita hvað var og maður var látinn hlusta á þetta rugl um ekki neitt hálfan fréttatímann! Svo var sagt að ef maður kæmist á internetið eða erlend blöð, þá væri þetta nú allt þar...aumingja Charlie er búinn að skjóta sig svo í fótinn með þessu lögbanni, nú er fréttin hundrað sinnum meira spennandi auðvitað!

|