<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, október 23, 2003

Sat á strætóstoppistöð niðri í bæ í gær og beið eftir hinum strjálförla Nr 15 sem er eini strætóinn sem fer fram hjá heimili mínu. Á meðan ég beið fóru margir nr 10, 11 og 16 og alltaf fór fólk í biðröð á eftir mér! Ég sat fjærst þeim enda sem strætó stoppar við, en alltaf stóð fólk við hliðina á mér, í stað þess að setjast á bekkinn sem var tómur hinum megin við mig. Ónei, ég skyldi fara fyrir þessari biðröð sama hvað. Ég auðvitað þráaðist við að vera neitt að færa mig, enda ekki von á mínum vagni fyrr en hálftíma og mörgum öðrum vögnum síðar. Þau um það!

Annað sem ég tók eftir er að Skotar nota hverja lausa stund til að reykja-margir strunsa um göturnar með rettuna í hendi. Á stoppistöðinni voru þegar ég kom tveir krakkar og tveir karlmenn, sem virtust öll vera að bíða saman. Stelpan var um 12-13 ára (kannski miklu eldri, þetta er allt svo visið og smátt, eitthvað) en saug sígarettu af ákafa til skiptis við strákinn sem var kannski 16-17. Karlmennirnir voru guggnir og gráir og reyktu í kapp við börnin. Svo tekur stelpan allt í einu upp á því að fara og bíða við næstu stoppistöð. Mér heyrist á samtali karlpeningsins að karlarnir þekki strákinn ekki mikið-eru að spyrja hann hvaðan hann sé og hvar hann búi núna. Svo stoppar strætó nr. 22 við hina stoppistöðina, þeir flýta sér yfir til stelpunnar, þau faðmast öll og kyssast, krakkarnir stíga um borð í nr 22 og kallarnir labba burt. Hjá mér vöknuðu spurningar:
1. Af hverju fóru þau ekki öll yfir á hina stoppistöðina fyrst enginn ætlaði í strætó á stoppistöðinni minni?
2. Af hverju föðmuðust þau og kysstust ef þau þekktust ekki?
3. Af hverju voru kallarnir þarna in the first place?
Í mínum huga er aðeins eitt svar: EITURLYFJAVIÐSKIPTI!!!



Ég gleymdi að skrifa um það þegar ég fór að skoða íbúðina sem ég flyt í eftir jól. Heim að húsinu er heimreið í skjóli trjáa og gamallar steinhleðslu. Þar sem ég geng eftirvæntingarfull eftir heimreiðinni skokkar íkorni eftir steinhleðslunni og stoppar öðru hverju og glápir. Þetta hlýtur að boða gott! Þess má geta að íkornar og Edinborg er í mínum huga tengt órjúfanlegum böndum. Þeir sem prófað hafa að sitja á bekk í Princes Street Gardens vita hvað ég á við.
Enda reyndist íbúðin vel þess virði að skoða hana og nú standa málin þannig að ég flyt inn í janúar, jibbí!

|