<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, október 30, 2003

Jæja, túrinn til Cambridge, nánar tiltekið Newmarket, að baki. Allir sem ég hitti í gær sögðu mér að Newmarket væri skrýtinn bær-og það er alveg satt. Ef þú hefur ekki áhuga á hestum hefurðu ekkert þangað að gera. Það eru meira að segja hrossstéttar við hliðina á venjulegu gangstéttunum og langar halarófur af hrossum og smávöxnum knöpum sjást fara yfir á gangbrautum í miðbænum. Þetta er helsta miðstöð Thoroughbred-veðhlaupahrossa í Evrópu. Hér eru margar veðhlaupabrautir og skrítið fólk á fínum bílum. Fékk bíltúr um svæðið með gamalreyndum hrossadýralækni, hann sýndi mér landareignir hrossaræktendanna í kringum bæinn. Þetta eru mest emírar, fakírar, sjeikar og aðrir ríkir Arabar. Og eins og dýralæknirinn sagði-þessi bissness er ekki til að verða ríkur, enginn heldur þetta lengi út nema fólk sem er nógu ríkt til að geta tapað helling af peningum án þess að sakna þeirra. Fékk að skoða hrossaræktarstöð Khaleids prins, sem er einn af kúnnum dýralæknisins. Þessari víðfeðmu landareign var skipt upp í deildir fyrir fylfullar merar, ungar merar, gamlar merar, stóðhesta og svo var meira að segja fæðingadeild! Og stóðhestarnir heita nöfnum eins og Rainbow Quest, Distant View, Mizzen Mast (!), Observatory og Beat Hollow. Rosalegt maður. Aðrir hrossaræktendur eru meðal annarra Emírinn frá Dubai og bræður hans. Allir gegna þeir einhverju embætti í ríkisstjórn lands síns en eru samt mest á flakki milli hrossaræktarstöðva sinna víðs vegar um heiminn. Mér var sagt að risastór höll emírsins væri í rauninni þrisvar sinnum stærri en hún sýndist, því hún væri að meiri hluta neðanjarðar...er hér kominn felustaður Mr bin Ladens?

Þess má geta að dýralæknirinn er meðeigandi annarrar af aðeins tveimur dýralæknastöðvum í nágrenninu, en þeir virðast mjög sterkir á þessum markaði, með 90 dýralækna, rannsóknarstofu sem Landspítali-Háskólasjúkrahús hefði aldrei efni á, skurðdeildir með fullkomnustu græjum og ég veit ekki hvað.

Sá liðspeglunaraðgerð í gær: Troðið var 20 cm löngum, tæplega cm breiðum stálpinna inn í hækilinn á hrossi, vatni dælt í liðinn og göt gerð á ýmsum stöðum til að vatnið kæmist nú út aftur. Svo var bara hamast með pinnann fram og aftur og liðurinn skoðaður á sjónvarpsskjá. Það var alls konar rusl og drasl sem þurfti að ryksuga burt og það var gert, meðan vatnsbunurnar stóðu í allar áttir úr löppinni á merargreyinu. Fegin er ég að hafa aldrei þurft að fara í svona aðgerð-prófaði einu sinni að láta sprauta einhverju kontrastefni í liðinn á mér fyrir röntgenmyndatöku og það var mesti sársauki sem ég hef upplifað-ja, svei!

Þess má geta að dýralæknirinn ekur um á eðal Jagúar sem segir til ef maður er alveg að fara að bakka inn í eitthvað. Hann hefur kannski kostað sem nemur ársfjárveitingu Landspítala-Háskólasjúkrahúss. Og Elaine, leiðbeinandinn minn ekur á glænýjum buff-Bimma eða Benz-drossíu. Þessir hrossadýralæknar...og svo er fólk að furða sig á að ég sé í hrossarannsóknum-puh!

|